Sundferð á morgun

Það er fyrirhuguð sundferð á þriðjudag í Sumarskólanum og því æskilegt að börnin hafi sundföt meðferðis á morgun.

Kær kveðja. 


Ferð á Úlfljótsvatn á morgun

Það var heldur betur líf og fjör í sumarskólanum í dag sem endaði á stórskemmtilegri leiksýningu. 

Á morgun verður farið á Úlfljótsvatn þar deginum verður eytt í bátum (starfsmenn Úlfljótsvatns verða okkur innan handar) og tækjum. Í hádeginu ætlum við að grilla blöðrusel og fíkjur  (lesist:pulsur) og samkvæmt áætlun verður heimkoma kl. fjögur eða þar um bil.

Krökkunum er velkomið að koma með sér ögn af sætindum til narta í eftir hádegi.

Góðar kveðjur.


A.T.H. Sundlaugarbakkinn getur verið blautur.

Það er fyrirhuguð sundferð á morgun í Sumarskólanum. Krökkunum verður skipt upp í tvo hópa   sem skiptast á að fara fyrir og eftir hádegi. Sundföt eru æskileg enda krakkarnir eitthvað hálf berir ef þeirra nýtur ekki:) Handklæði og nýjar nærur geta einnig komið að gagni. 

 Sólskins kveðjur.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


,,og allir komu þeir aftur"

Það var heldur betur fjörugur dagur í Sumarskólanum í dag og margt brallað og mallað. Hæst bar þó fjallganga á Esjuna með tilheyrandi svita og hita þar sem toppnum var náð með litlu ævintýri sem Tóta sagði með tilþrifum.

Á morgun er m.a. áætlað að fara í ratleik í Öskjuhlíðinni og því ákaflega gott að senda börnin vel skóuð sem endranær.

Takk fyrir daginn.


Sumarskóli Ísaksskóla

 
...og þannig lauk farsælum vetri í Ísaksskóla með miklum sóma og upp reis Sumar með dýrðarljóma og þeyttum rjóma.
 
Hér með gerist kunnugt og skal það hljóma um allar merkur mannanna að Sumarskóli Ísaksskóla hefst mánudaginn 11. júní. 
Formleg dagskrá hefst kl. níu en þó er opnað  kl. átta fyrir árrisula og morgunglaða krakka sem una ekki sekúndu lengur í rúminu.
 
Hér á þessu bloggi er meiningin að halda úti upplýsingum um það hvað sé á dagskrá sumarskólans og aukinheldur verða tíunduð 
ævintýri gærdagsins ef vel áttar og háttar.
 
Á mánudag er dagskráin lögð upp þannig að fyrir hádegi er stefnt að því að hrista hópinn vel saman með leikjum og söng. Þá er ekki ólíklegt að Miklatún verði heimsótt og þar iðkaðar æfingar og leikir í því skyni að samhæfa kraft, úthald og skilning en þetta eru allt orð sem  sportfíkillinn og útvatnaða kreatín tröllið okkar Jóhann Hreiðarsson lærði áður en hann gat sagt ,,mamma". Eftir hádegi verður síðan lagt upp í fjallgöngu og stefnan sett á einn af hólunum sjö. Áætluð heimkoma er um kl fjögur. 
Góðir skór og feitur bakpoki eru staðalbúnaður vaskra göngumanna og skal það vera hugfast þegar börnin eru útbúin á mánudagsmorgun.  Þá er ágætt að nota tækifærið og minna foreldra og aðra forráðamenn ungdómsins á að nesta börnin vel þó svo hádegismatur sé pantaður enda lystin endalaus þegar vel er tekið á. 
 
Að endingu bendum við á að tekið er á móti börnum Sólbrekkumegin þ.a.s. austan megin.
 
Góðar stundir.
 

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband